Frétt
·
Mar 31, 2025
Orka náttúrunnar hefur sjálfbærni, ábyrga nýtingu auðlinda og virðingu fyrir náttúrunni að leiðarljósi í öllum sínum verkefnum. Það var því starfsfólki einnig efst í huga þegar farið var af stað að útbúa nýtt kynningarefni fyrir ON, svo sem fyrir nýja heimasíðu okkar sem opnar von bráðar. Því var leitað til ljósmyndarans Önnu Maggýjar til að fanga þá kraftmiklu orku sem býr í íslensku landslagi.
Þrátt fyrir að Anna Maggý hafði áður lýst því yfir að hún myndi aldrei mynda náttúruna, þar sem hún teldi ekkert jafnast á við að upplifa hana með eigin augum, féll hún fyrir áskoruninni þegar verkefnið kom til hennar frá ON og Strik Studio. Hún fékk fullt frelsi til að nálgast efnið á sínum eigin forsendum og skapa sína sýn á orku náttúrunnar.
Anna Maggý myndaði náttúruna og kraftinn í henni um allt land og tókst svo vel til að okkur langaði að sem flest myndu njóta myndanna hennar. Því var ákveðið að opna sýningu sem er hluti af dagskrá Hönnunarmars og stendur yfir dagana 3. til 6. apríl. Með sýningunni og skilaboðum hennar vonumst við líka til að fólk átti sig á hlutverki Orku náttúrunnar, því hversu mikilvæg náttúran er okkur og hversu mikið hún gefur okkur öllum í daglegu lífi.
„Fljótlega áttaði ég mig á því hversu skemmtilegt þetta var – og hvað þetta breyttist hratt úr verkefni yfir í ástríðu. Það sem heillaði mig mest var óvissan. Að leggja af stað án þess að vita nákvæmlega hvað beið mín. Að þurfa að lesa í náttúruna – pæla í sólarupprás, sólsetri, flóði og fjöru, veðri og birtu. Bæði svo fallegt og ógnvekjandi, endalaus birta á sumrin og mikið myrkur á veturna. Miklar andstæður. Ég keyrði nokkra hringi í kringum landið, heimsótti sömu staði aftur og aftur, en á einhvern hátt var upplifunin alltaf ný. Ég er þakklát fyrir þetta verkefni, sem opnaði nýjar víddir fyrir mér og kveikti áhuga og ástríðu. Tilfinningin, að hverfa inn í náttúruna og taka á móti því sem hún gefur, án þess að hafa allt planað fyrirfram, var einstök. Ramminn sem ég setti mér var einfaldur: að fanga orku náttúrunnar, án þess að hafa nokkuð manngert í mynd. Náttúran hér er svo sterk og síbreytileg, veður sem skiptir um skap án fyrirvara. Það sem heillar mig við Ísland er hvernig ljósið, veðrið og landslagið breytast stöðugt – það er alltaf ný upplifun. Við sköpum ekki náttúruna, en við getum lært af henni og verið meðvituð um áhrif okkar á hana. Náttúran er ekki bara eitthvað sem við skoðum – hún er eitthvað sem við erum hluti af, þetta snýst ekki bara um að horfa, heldur einnig að finna og skynja,” segir Anna Maggý.
Sýningin Orka náttúrunnar fer fram í Listagallerí Hverfisgötu 4, 101 Reykjavík og er opin fyrir öll. Sýningin verður opnuð með opnunarteiti næstkomandi fimmtudag klukkan 18.
Opnunartímar:
Fimmtudagur 3. apríl – 18-20
Föstudagur 4. apríl – 13-18
Laugardagur 5. apríl 13-18
Sunnudagur 6. apríl 13-18