
Frétt
·
Apr 16, 2025
Sara Sigurjónsdóttir, þjónusturáðgjafi í þjónustuveri ON, gefur vinnustaðnum sínum einkunn upp á 10,5 og segir hann vera líklega besta vinnustað í heimi! Henni finnst gaman að vinna með öllu frábæra fólkinu hjá ON og að vera í samskiptum við viðskiptavini fyrirtækisins. Allra skemmtilegast þykir Söru að finna út úr og leysa flókin vandamál fyrir viðskiptavini en hjá ON er einmitt lögð mikil áhersla á að þjónusta, ráðleggja og hjálpa viðskiptavinum þegar kemur að sölu á rafmagni, hvort sem það er til heimila, fyrirtækja eða rafbílaeigenda og hefur það orðið til þess að ON hefur í sex ár í röð hlotið viðurkenningu Íslensku ánægjuvogarinnar og verið númer eitt á markaði raforkusala á Íslandi.
Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn og heitt vatn á ábyrgan og umhverfisvænan hátt. Hjá fyrirtækinu starfar fjölbreyttur hópur fólks í margvíslegum og ólíkum störfum. Í þessari viðtalaröð kynnumst við starfsfólki Orku náttúrunnar betur; hver eru þau, hvað gera þau og hvað finnst þeim skemmtilegast við vinnuna sína?
Hvað gerir þú hjá ON?
Ég starfa á Sölu- og þjónustusviði í þjónustuveri hjá ON. Þar er ég þjónusturáðgjafi. Í mínu starfi er ég í samskiptum við viðskiptavini ON, hvort sem þeir eru í viðskiptum með heimilisrafmagnið sitt eða að hlaða bílinn sinn hjá ON.
ON er með breitt hleðslunet fyrir rafmagnsbíla og viðskiptavinir okkar lenda oft í ýmsum vandræðum þegar þeir eru að hlaða bílinn sinn. Því má segja að við sinnum hleðsluhjálp og sálrænni aðstoð fyrir viðskiptavini okkar með drægnikvíða 😉 Að auki erum við í miklum samskiptum við fyrirtæki sem eru að koma sér upp rafbílaflota og þurfa að reiða sig á hleðslustöðvar frá okkur, hvort sem það eru almenningsstöðvar eða stöðvar sem fyrirtækin leigja hjá okkur.
Hver er þín fyrri reynsla og/eða menntun?
Ég hef alla tíð unnið í þjónustustörfum og finnst það sjúklega skemmtilegt. Ég vann lengi sem unglingur í verslunum og svo starfaði ég sem framlínustarfsmaður í bæði Glitni (síðar Íslandsbanki) og svo í Landsbankanum. Að vera framlínustarfsmaður í banka í bankahruninu var sérstaklega krefjandi og algjör skóli fyrir unga konu. Þetta var líklega einn erfiðasti tími sem ég hef átt í starfi en á sama tíma herti þetta mig og kenndi mér mikið um hvernig er best að nálgast viðskiptavini og fólk almennt. Eftir bankaævintýrið mitt fór ég í háskólann og kláraði BSc gráðu í sálfræði í HR þar sem ég lærði allt um mannlega hegðun sem hefur hjálpað mér enn betur í samskiptum við fólk sem er lykiluppistaðan í starfi mínu hjá ON.
Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið þitt?
Mér finnst ótrúlega gaman að vinna með öllu frábæra fólkinu sem starfar hjá ON, enda líklega besti vinnustaður í heimi 😊 Síðan er brjálæðislega gaman að vera í samskiptum við alla viðskiptavinina okkar. Svo er það allra skemmtilegasta að vera með krefjandi og flókið mál í vinnslu og ná að finna út úr því og leysa vandamálið fyrir viðskiptavininn. Það er mjög gaman.
Geturðu nefnt dæmi um spennandi eða krefjandi verkefni sem þú hefur unnið að hér?
Það var mjög skemmtilegt þegar ég fékk að koma að því að taka nýtt kerfi í notkun fyrir ON sem snýr að því að halda utan um öll samskipti okkar við viðskiptavininn. Það var miklu meiri vinna en mig hefði nokkurn tímann grunað. Ég er svo með það hlutverk að vera ofurnotandi yfir þessu kerfi og það er mjög krefjandi og skemmtilegt. Þá þarf að koma nýjum starfsmönnum inn í kerfið, kenna notendum á kerfið, láta vita ef eitthvað er ekki eins og það á að vera og ýmislegt fleira.
Hvað var það sem fékk þig til að koma og vinna fyrir ON?
Ég hef starfað hjá Orkuveitunni og dótturfélögum í bráðum 7 ár og aðal ástæðan fyrir því að ég sótti um til að byrja með er hvað ég var búin að heyra að vinnustaðurinn væri frábær og fjölskylduvænn. Þegar ég færði mig svo yfir til ON var það aðallega bara fólkið innan ON, stemningin og andrúmsloftið sem fékk mig til að vilja færa mig yfir. Það er ekkert eins og góður starfsandi og hann er svo sannarlega að finna í ON. Síðan er ég mjög mikil áhugamanneskja um rafmagnsbíla og finnst mjög gaman hvað ON hefur verið leiðandi í rafbílavæðingu landsins með hleðslustöðvar um allt land. Ég er líka mjög stolt af því að vinna hjá fyrirtæki sem lætur sig umhverfismál jafn mikið varða og ON gerir.
Hvað finnst þér ON gera vel þegar kemur að starfsanda og vellíðan á vinnustað?
ON er með reglulegar kannanir þar sem starfsandi og vellíðan á vinnustaðnum er mæld. Ef mælingar koma ekki nægilega vel út, er strax brugðist við og hlutirnir lagaðir. ON og Orkuveitusamstæðan öll býður svo sínum starfmönnum upp á að taka tvær klukkustundir í líkamsrækt í hverri viku á vinnutíma, þar sem starfsfólkið getur farið í vel útbúna líkamsræktarstöð sem er staðsett innanhús eða stundað hvaða líkamsrækt sem er. Síðan eru haldnir mjög reglulegir viðburðir eins og t.d. jólatónleikar, árshátíð, söngvakeppni og ýmis partý sem eru hver öðru frábærari. Má þar nefna 80´s og 90´s partý þar sem öll mættu í geggjuðum búningum og Orkuveituhúsinu var breytt í skemmtistað á þremur hæðum.
Hvaða samstarf innan ON hefur haft mest áhrif á þig og af hverju?
Vá, mjög erfið spurning. Við þjónusturáðgjafarnir eigum í mestu samstarfi með sölu- og tæknimönnunum. Ætli ég myndi ekki segja samstarfið með tæknimönnunum. Ég læri alltaf meira og meira um tæknilegu hliðina á hleðslustöðvunum í hvert skipti sem ég tala við þau. Þar er hafsjór af fróðleik sem er mjög gaman að reyna að læra af.
Hvernig styður fyrirtækið þig í starfsþróun og persónulegum vexti?
Ég elska að læra nýja hluti en mætti alveg vera duglegri að nýta mér allt sem er í boði til að vaxa innan fyrirtækisins. Það eru reglulega haldin ýmis námskeið sem starfsfólk getur sótt.
Hvernig er jafnvægið milli vinnu og einkalífs hjá þér í þessu starfi?
Mjög gott. Auðvitað er mismikið að gera og suma daga er ég mjög þreytt þegar ég kem heim. En langoftast þegar ég labba úr vinnunni er ég bara búin að vinna og næ að skilja vinnuna eftir í vinnunni.
Hvernig lýsir þú menningu ON í þremur orðum?
Skemmtileg, uppbyggileg og frábær 😊
Hvaða meðmæli með vinnustaðnum gæfir þú vini sem langar að sækja um starf hjá ON?
Ég myndi alltaf gefa vinnustaðnum einkunn upp á 10,5 og myndi hvetja alla vini mína til að sækja um, ekki seinna en strax 😊