Heimilið

Hleðsla

Fyrirtæki

Virkjanasvæði

Um ON

Skilmálar Orku náttúrunnar ohf.

  1. Gildissvið

Orka náttúrunnar („ON“) kt. 471119-0830, Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík, selur raforku í samræmi við raforkulög nr. 65/2003, reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005 og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019.

Hér á eftir fara almennir viðskiptaskilmálar ON, sem gilda skulu um öll viðskipta- og samningssambönd ON og viðskiptavina hennar, þá eru meðtaldir raforkusölusamningar, nema um annað sé sérstaklega samið. Viðskiptavinir ON samþykkja að með gerð raforkusölusamnings, hvort sem hann er gerður skriflega, munnlega eða með rafrænum hætti, þá gilda um hann þessir viðskiptaskilmálar. Með greiðslu fyrsta raforkureiknings staðfestir viðskiptavinur viðskiptasamband sitt við ON og að um það gildi viðskiptaskilmálar ON.

  1. Verð, greiðsluskilmálar, innheimta, vextir og stöðvun orkuafhendingar

Orka náttúrunnar („ON“) kt. 471119-0830, Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík, selur raforku í samræmi við raforkulög nr. 65/2003, reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005 og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019.

Viðskiptavinur samþykkir með gerð raforkusölusamnings við ON að veita ON umboð til að afla upplýsinga um raforkunotkun hans frá þeirri dreifiveitu sem sér um dreifingu rafmagns til viðskiptavinarins. Umboðið nær m.a. til upplýsinga um númer mælis/veitu, dreifiveitusvæði, heimilisfang, dreifiveitutaxta, áætlaða ársnotkun, meðalnotkun, síðasta álestur, mæliaðferð, stöðu mælis, margföldunarstuðul og stafafjölda mælis. Ef um tímamældar veitur er að ræða þá eru notkunartölur afhentar allt að 24 mánuði aftur í tímann. ON er heimilt að áætla notkun hjá viðskiptavini ef hann hefur ekki verið áður í viðskiptum við ON. Verð fer eftir gildandi verðskrá ON hverju sinni, sé ekki um annað samið. Verðskráin er ávallt uppfærð og kynnt á vef ON og kemur einnig fram á reikningi ON til viðskiptavinar. Orkuverð innifelur eingöngu verð á söluhluta raforku. ON ber að innheimta skatta og gjöld skv. gildandi löggjöf hverju sinni. Viðskiptavinur skal greiða mánaðargjald skv. reikningi frá ON. Gjalddagi er 5. dagur þar næsta mánaðar eftir notkunarmánuð vegna fjarmældrar notkunar, en 5. dagur næsta mánaðar eftir notkunarmánuð vegna áætlunar og álesinnar notkunar. Dráttarvextir reiknast af viðskiptaskuldinni frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. ON innheimtir seðilgjald eða tilkynningar- og greiðslugjald vegna birtingar reikninga. Gjaldið er breytilegt eftir því hvort um er að ræða greiðsluseðla á pappír, greiðslukort eða greiðsla reikninga í netbanka. ON er heimilt að stöðva orkuafhendingu til viðskiptavinar, með aðstoð dreifiveitu, ef viðskiptaskuldin lendir í vanskilum. Dreifiveitu er í slíkum tilvikum heimilt að innheimta lokunar- og opnunargjöld hjá viðskiptavini.


Ef viðskiptavinur er, með gerð raforkusölusamnings við ON, að skipta um söluaðila raforku þá tekur samningurinn gildi í samræmi við 10. gr. reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar en þar segir að almennum notanda sé heimilt að segja upp raforkusölusamningi við sölufyrirtæki með 3ja vikna fyrirvara á gildistíma hans, sem taki þá gildi um næstu mánaðamót

  1. Uppsögn samnings

Nema um annað sé samið eru raforkusölusamningar ON og almennra notenda ótímabundnir. Báðum aðilum er heimilt að segja upp raforkusölusamningi. Hafi ekki verið samið um annað milli ON og viðskiptavinar, getur viðskiptavinur sagt upp samningi sínum við ON með 3ja vikna fyrirvara og tekur uppsögnin þá gildi næstu mánaðamót á eftir.

  1. Riftun

ON er heimilt að rifta raforkusölusamningi sínum við viðskiptavin ef vanskil eiga sér stað vegna raforkukaupa að því gefnu að ON hafi fyrst varað viðskiptavininn skriflega við því að slíkt geti átt sér stað. Þá er ON einnig heimilt án fyrirvara að rifta samningi við viðskiptavin ef bú viðskiptavinar er tekið til gjaldþrotaskipta. Viðskiptavinur getur rift samningi sínum við ON ef ON vanefnir skyldur sínar með verulegum hætti.

  1. Nýr notandi

ON áskilur sér rétt til að synja nýjum aðila, eða nýjum notkunarstað núverandi viðskiptavinar, um afhendingu á raforku vegna m.a. fyrri vanskila, stöðu á vanskilaskrá, úrskurðar um gjaldþrot eða ef notkunarferill hans er þess eðlis að ON er erfitt um vik að afhenda umbeðið magn af orku til hans. Hafni ON raforkuviðskiptum við viðskiptavin getur hann borið það undir Orkustofnun.

  1. ON-lyklar, umsókn og útgáfa

ON gefur út ON-lykla og heldur úti ON snjallsímaforriti (ON appið) vegna sölu á rafmagni í hleðslustöðvum ON. Skilmálar þessir gilda fyrir ON-lykla og ON appið, sem tengd eru með greiðslukorti, að svo miklu leyti sem það á við. Úttektir eru gerðar með ON-lykli og innheimtar með færslu um kortareikning viðkomandi ON-lykils. Innheimta kortafærslu fer eftir skilmálum viðkomandi kortafyrirtækis. Skilmálar þessir eru samþykktir við skráningu í viðskipti á vefsíðu ON og skoðast samþykkið staðfest við fyrstu greiðslu og notkun á ON-lykli.


ON-lykill er eign ON en meðferð og notkun hans er alfarið á ábyrgð skráðs handhafa lykilsins. Handhafa lykils ber að kynna sér viðskiptaskilmála þessa. Glatist ON-lykill skal handhafi þegar í stað aftengja lykilinn greiðslukorti á vefsíðu ON (mínum síðum). Jafnframt er unnt að tilkynna það í símanúmer ON 591 2700 (opið allan sólarhringinn allt árið). Handhafi lykils ber fulla ábyrgð á úttektum með glötuðum lykli þar til lykill hefur verið aftengdur greiðslukorti.


ON áskilur sér rétt til að loka og/eða afvirkja ON-lykil fyrirvaralaust ef um misnotkun eða vanskil er að ræða. Skráður handhafi ON-lykils skuldbindur sig til að greiða að fullu úttektir sem framkvæmdar eru með ON-lykli og í samræmi við gildandi verðskrá ON fyrir hleðslur á hverjum tíma.


Sótt er um ON-lykla á vefsíðu ON. ON appið er sótt í gegnum snjallsíma í Google Play og IOS Appstore.

  1. Sérkjör fyrir rafbílaheimili

Rafbílaheimili (Hús og bíll) eru þau heimili sem eru með rafbíl, ON-lykil og kaupa rafmagn af ON fyrir heimilið. Rafbílaheimili fá afslátt af notkun rafmagns á heimilinu sem keypt er af ON. Afsláttur á ekki við um rafmagnsdreifingu þar sem henni er ekki sinnt af ON heldur dreifiveitu á viðkomandi svæði.


Ef viðskiptavinur er ekki „rafbílaheimili“ t.d. ef rafbíll er ekki hlaðinn á heimilinu og/eða ON lykil hefur ekki verið notaður síðustu 6 mánuði, áskilur ON sér rétt til taka sérkjör af rafmagnsnotkun heimilis. Sérkjör fyrir rafbílaheimili gilda þar til annað verður ákveðið, viðskiptavinir verða upplýstir ef breytingar verða.

  1. Breytingar á viðskiptaskilmálum

ON áskilur sér einhliða rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum. Breytingar á viðskiptaskilmálum taka gildi frá birtingu þeirra á heimasíðu ON.

  1. Framsal

Réttindi og skyldur samkvæmt viðskiptaskilmálum þessum getur viðskiptavinur ekki framselt, flutt eða falið öðrum án samþykkis ON og sérhvert meint framsal eða flutningur án slíks samþykkis er ógilt með öllu. ON skal ekki með ósanngjörnum hætti synja um slíkt samþykki eða draga að taka afstöðu til beiðnar um slíkt samþykki. ON er heimilt að framselja réttindi og skyldur skv. samningi þessum til félags innan sömu samstæðu.

  1. Lausn ágreiningsmála

Komi upp ágreiningur út af viðskiptaskilmálum þessum skulu aðilar leitast við að leysa hann í sátt. Rísi mál út af þeim skal reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

  1. Persónuvernd

Til að uppfylla skyldur sínar skv. skilmálum þessum og lögum samkvæmt vinnur ON með tilteknar persónuupplýsingar um viðskiptavini. Um vinnslu persónuupplýsinga fer samkvæmt persónuverndarstefnu ON sem aðgengileg er á heimasíðu fyrirtækisins.

  1. Gildistaka

Viðskiptaskilmálar þessir taka gildi frá og með 1. maí 2021.