Frétt
·
Jul 18, 2024
Rafbílaeigendur landsins fá nú enn eina ástæðu til að gleðjast þar sem Orka náttúrunnar hefur tekið í notkun nýja hraðhleðslustöð við Lava Center á Hvolsvelli. Nýja hraðhleðslustöðin er í raun tilraunaverkefni þar sem stöðin er nokkurs konar hleðslubanki.
Hraðhleðslustöðvar þarfnast mikils rafmagns og á sumum stöðum er það af skornum skammti. Hleðsluteymi ON er því ávallt að leita nýrra lausna til að byggja upp öflugt og notendavænt hleðslunet um land allt til að tryggja viðskiptavinum sínum þægilega upplifun á ferðalagi.
Nýja hleðslustöðin á Hvolsvelli er með áfastri 233 kWh rafhlöðu sem gerir okkur kleift að vera tengd við minni heimtaug en á öðrum stöðum eða 100A en samt boðið upp á allt að 210 kW hleðsluhraða. Hleðslubankinn hleður sig svo upp á milli þess sem rafbílanotendur nota stöðina. Með þessari nýju tækni næst hámarks hleðsluhraði og betri nýting á því rafmagni sem í boði er.
Rafbílaeigendur geta nú keyrt Suðurlandið áhyggjulausari en þetta er aðeins byrjunin á öflugri framtíð fyrir rafbílaeigendur landsins. Það eru spennandi tímar framundan hjá ON og við hvetjum öll til að fylgjast með fréttum af nýjum hleðslustöðum sem verða kynntir á næstu vikum og mánuðum.
