Frétt
·
Sep 20, 2024
Ráðstefna um Jarðhitagarð Orku náttúrunnar „Orka, auðlindir og nýsköpun“ sem haldin var í Grósku í vikunni var afar vel heppnuð. Þar sagði viðskiptaþróunarstjóri Jarðhitagarðs, Helga Kristín Jóhannsdóttir, frá tækifærunum sem felast í Jarðhitagarðinum og frá nýju baðlóni sem fyrirhugað er að verði þar staðsett.

Fulltrúar tveggja samstarfsfyrirtækja okkar í garðinum, Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri VAXA Technology og Sara Lind Guðbergsdóttir, framkvæmdastjóri Climeworks á Íslandi, sögðu sögur sinna fyrirtækja sem eiga það sameiginlegt að hafa vaxið gríðarlega frá því þau fyrst tóku til starfa í Jarðhitagarðinum.


Snorri Jökull Egilsson, sérfræðingur í umhverfis- og loftslagsmálum hjá Orkuveitunni útskýrði hringrásina á heiðinni auk þess sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hélt kraftmikið opnunarerindi og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar flutti lokaorð ráðstefnunnar og þakkaði gestum og fyrirlesurum fyrir komuna.

Í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði er einstakt samfélag framsækinna fyrirtækja sem skapa verðmæti með ábyrgri nýtingu auðlinda á svæðinu. Þar eru ótalmörg tækifæri og hringrásarsamfélag í uppbyggingu þar sem samstarfsaðilar deila innviðum, þekkingu og auðlindum til að lágmarka sóun og hámarka ávinning fyrir fyrirtækin, samfélag og náttúru. Við styðjum við nýsköpun tengda jarðvarma, sem nýtt baðlón er einmitt frábært dæmi um, og flýtum þannig fyrir framþróun grænna tæknilausna. Saman vinnum við þannig að ábyrgri nýtingu auðlinda svæðisins.
Myndir: SteinaMatt

