Frétt
·
Sep 4, 2024
Orka náttúrunnar tók í dag á móti viðurkenningunni Sjálfbærniásinn 2024. Orka náttúrunnar mældist hæst meðal raforkusala á þessum nýja samræmda mælikvarða sem eftirleiðis verður notaður og viðurkenningar veittar árlega þeim sem hæst mælast.
Sjálfbærniásinn er nýr samræmdur mælikvarði sem mælir viðhorf íslenskra neytenda til frammistöðu fyrirtækja í sjálfbærnimálum og gerir samanburð á stöðu og þróun á mörkuðum. Prósent, Langbrók og Stjórnvísi standa að Sjálfbærniásnum.
Þessi viðurkenning er rós í hnappagat Orku náttúrunnar sem og Orkuveitunnar, móðurfélags ON, því sjálfbærnimál eru öllu starfsfólki fyrirtækjanna sérstaklega hugleikin og kemur það fram í öllum þeirra störfum.
„Orka náttúrunnar er stærsta jarðvarmafyrirtæki landsins, rekur þrjár virkjanir þar sem bæði heitt vatn og rafmagn er framleitt. ON framleiðir þó ekki bara umhverfisvæna orku fyrir heimili, fyrirtæki og farartæki heldur leggur fyrirtækið einnig ríka áherslu á rannsóknir, nýsköpun og sjálfbærni með það fyrir augum að tryggja komandi kynslóðum betri lífsgæði, segir Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.
Umhverfið og auðlindir okkar eru okkur sérstaklega hugleikin í öllum okkar störfum. Til að mynda er markvisst unnið að endurheimt náttúrlegs gróðurs eftir rask sem fylgir þeim framkvæmum sem við förum í. Stór flokkur fólks starfar við landgræðslu á sumrin hjá okkur og umhverfisverkefni og aðferðir okkar hafa verið mörgum fyrirmynd.
Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um að verða kolefnishlutlaus á næstu árum og vinnum ötullega að þeim markmiðum á hverjum degi. Við rekum einu vetnisframleiðslustöð landsins en við vinnum ekki eingöngu að því að draga úr eigin kolefnisspori heldur höfum við líka verið í fararbroddi í uppbyggingu innviða og hvatningu til almennings og atvinnulífs til að draga úr kolefnislosun með vistvænum samgöngum og þar spilar ört stækkandi hleðslunet ON stóra rullu.
„Orka náttúrunnar er, til viðbótar við það sem nú þegar hefur komið fram, samfélagslega mikilvægt bæði eigendum sínum, sem og samfélaginu öllu. Því erum við einstaklega stolt af þessari viðurkenningu og þetta er frábær viðurkenning á framúrskarandi starfi okkar rúmlega 100 starfsmanna,“ sagði Árni Hrannar þegar hann veitti viðurkenningunni viðtöku í dag.