Frétt
·
Jun 28, 2024
Stór og fjölbreyttur hópur innlendra og erlendra aðila sýndi áhuga á kaupum á 150 megavöttum af raforku frá jarðvarmavirkjunum Orku náttúrunnar. Fyrirtækið birti auglýsingu þess efnis á alþjóðlegum vettvangi í byrjun mars í gegnum evrópskan útboðsvef. Markmiðið er að fá markaðsverð fyrir raforkuna þegar núverandi raforkusölusamningar ON renna út á næstu 2-4 árum.
Eftir vandlega yfirferð gagna sem bárust og fundum með fulltrúum allra verkefna er ljóst að áhugi er mun meiri en framboð. Markmið ON í þessum fyrstu skrefum var að meta þátttakendur út frá arðsemi, áhættu og þroska viðkomandi verkefnis. Eftir ítarlegt mat standa nú átta aðilar eftir sem boðið hefur verið áfram til viðræðna um væntanlega raforkusölusamninga.
„Við erum mjög ánægð með framvindu mála og sjáum fram á að geta náð góðum raforkusamningum,“ segir Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar. „Viðræður munu halda áfram á næstu mánuðum með það að markmiði að tryggja markaðsverð fyrir raforkuna og með því styrkja framtíðarrekstur fyrirtækisins, eigendum og samfélaginu til heilla.“