Frétt
·
Mar 26, 2024
Við hjá Orku náttúrunnar höfum einsett okkur að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og öll okkar starfsemi hverfist í kringum þá hugsun.
Við erum því stolt af því að Loftslagsbókhald Orkuveitunnar og dótturfélaga og þar með Orku náttúrunnar, hafi nú hlotið óháða alþjóðlega vottun frá Bureau veritas sem eykur mjög á áreiðanleika þess.
Áður höfðu Orkuveitan og dótturfélög hlotið góða einkunn af hálfu hins alþjóðlega Carbon Disclosure Project og einnig fengið staðfest af SBTi að loftslagsmarkmið fyrirtækjanna séu í samræmi við loftslagsmarkmið Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um að halda hlýnun heimsins innan við 1½ gráðu. Hér má lesa nánar um vottun loftslagsbókhaldsins.
„Eitt af gildum okkar hjá ON er heiðarleiki og við leggjum mikið upp úr því að veita réttar upplýsingar um starfsemina okkar. Þess vegna vildum við fá óháðan aðila til að staðfesta að aðferðafræði og útreikningar okkar séu réttir,“ segir Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri ON. Með vottun Bureau veritas hefur umfang loftslagsbókhaldsins aukist verulega og nær nú utan um aðfangskeðju Orkuveitunnar. Það auðveldar utanumhald heildaráhrifa Orkuveitunnar á loftslagið.
„Við erum með metnaðarfull markmið um kolefnishlutlausa Hellisheiðarvirkjun á allra næstu árum og því er mikilvægt að loftslagsbókhaldið sé rétt. Við erum langt komin með að byggja lofthreinsistöð við virkjunina sem hreinsar nánast allan koltvísýring úr gufunni. Stöðin mun einnig hreinsa nær allt brennisteinsvetni frá virkjuninni,” segir Magnea.
Jafnframt fékkst vottun á kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt utan framkvæmdasvæða sem stunduð er á svæðum Orku náttúrunnar. Að sögn Magneu er markmiðið fyrst og fremst að endurheimta staðargróður og styðja við líffræðilega fjölbreytni svæðanna og kolefnisbindingin kemur svo í kaupbæti en er ekki markmiðið í sjálfu sér. „Landbótasvæðin okkar eru þó að binda töluvert af koltvísýringi, sem vegur aðeins á móti losuninni og mun vega enn meira þegar lofthreinsistöðin er komin í rekstur og við verðum búin að draga úr nær allri losun á koltvísýringi frá Hellisheiðarvirkjun. Það eru því blómlegir tímar fram undan hjá Orku náttúrunnar,” segir Magnea.