Sundlaugamenning
Íslensk sundlaugamenning er menningarfræðilegt fyrirbæri út af fyrir sig. Í byrjun árs 2023 var sundlaugamenningin til dæmis tilnefnd til opinberrar skráningar á UNESCO lista yfir óáþreifanlega menningararfleið. Það eru meira en 120 sundlaugar á Íslandi og nær allar þeirra veita aðgang að heitum útilaugum og pottum allan ársins hring. Þetta er ótrúlegur fjöldi miðað við að hér búa eingöngu tæplega 400.000 manns. Næstum allar borgir, bæir og þorp hafa sína eigin sundlaug og heita potta, þökk sé jarðhita. Þessi fjöldi sundlauga og menningin kringum þær er þó tiltölulega nýlegt fyrirbæri þar sem íslenska þjóðin varð almennt ekki synd fyrr en um aldamótin 1900.
Heitar laugar hafa ávallt verið griðastaður Íslendinga þar sem hægt er að gleyma raunum heimsins. Þessi mynd er tekin í Landmannalaugum árið 1943 á meðan heimsstyrjöldin síðari er í algleymingi.
Íslendingar eru og verða ávallt mikil sundlaugaþjóð.
Þrátt fyrir að landnemar og beinir afkomendur þeirra hafi líklega kunnað að synda þá dó sú kunnátta út á miðöldum. Þetta þykir óvenjulegt þar sem Ísland er eyja og eyjaskeggjar hér ávallt sótt sjó til veiða og ferðalaga. Ef til vill þótti vænlegast að sleppa sundkennslu þar sem geta til sunds myndi einungis fresta óhjákvæmilegum örlögum sjómanna sem í ískalt Atlantshafið féllu og lengja dauðastríð þeirra.
Hver sem ástæðan kann að vera þá segir sagan að árið 1820 hafi einungis sex Íslendingar verið syndir. Um og upp úr aldamótum 1900 varð sundkennsla loks smátt og smátt algengari. Fyrst um sinn fór kennslan fram í köldum sjónum en færðist svo yfir í heitar laugar sem sífellt urðu algengari um land allt.
UMFÍ Íslandsmót í Hveragerði, árið 1949. Margt er um manninn og spennan mikil fyrir kappsundið sem um það bil er að hefjast.
Ein elsta manngerða laugin á Íslandi er nú kölluð „The Secret Lagoon“ eða Gamla laugin. Hún var byggð árið 1891 og gerði hlýja vatnið sund mun meira aðlaðandi en ískaldur sjórinn. Á næstu áratugum voru fleiri sundlaugar byggðar um landið allt, til dæmis Laugardalslaug, byggð 1907-1908, Seljavallalaug, byggð árið 1923 og Sundhöllin árið 1937. Sundkennsla, sérstaklega fyrir börn, jókst með útbreiðslu sundlauganna.
Seljavallalaug var byggð árið 1923 en þessi mynd er tekin á árunum 1950-1955. Þrátt fyrir að lauginni hafi verið lokað er enn vatn í henni og ferðalangar duglegir að stelast til að fá sér sundsprett.
Laugaskarð, sundlaugin í Hveragerði, tekin milli 1941-1945.
Drukknun í sjó hélt áfram að vera stórt og alvarlegt vandamál langt fram á 20. öldina. Eftir mikil sjóskaða ár fimmta áratugar 20. aldar varð það skylda að læra sund í grunnskólum um allt land. Í dag þykir okkur nær óhugsandi að læra ekki sundtökin frá unga aldri og algengt er að ungabörn allt niður í tveggja mánaða aldur fari á sundnámskeið með foreldrum sínum.
Sundlaugin á Selfossi var lengi vel eina laugin á landinu sem var með rennibraut en þessi mynd er tekin 1985. Nú er hún ef til vill frægust fyrir “Ostinn”, rennibraut fyrir yngstu kynslóðina.
Algengt er að fólk fari í sund oft og jafnvel daglega. Sumir synda hreyfingarinnar vegna en aðrir fyrir slökunina. Svo eru enn aðrir sem lauga sig fyrir félagsskapinn og í augum margra er það mikilvæg hefð að hitta vini og fjölskyldu í sundi eða blanda geði við ókunnuga í heita pottinum.
Um allt land kemur heita vatnið í sundlaugunum frá jarðhitasvæðum. Sumar náttúrulaugar, til dæmis í Reykjadalnum, leyfa fólki að dýfa sér beint í jarðhitavatnið þar sem það hefur blandast við kalt vatn úr lækjum og kólnað. Aðrar laugar nota vatn frá lághitasvæðum, úr varmaskiptum líkt og þeir sem eru í Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun eða blöndu af þessu tvennu.
Sund er auðvelt og aðgengilegt og flestir nýtum við okkur laugarnar að einhverju leiti. Erlendir gestir eru líka duglegir að nýta sér laugarnar og í augum margra ferðamanna er sundlaugaferð það “íslenskasta” sem hægt er að gera. Það jafnast ekkert á við að slaka á ofan í heita pottinum eftir erfiða fjallgöngu eða langan dag á skrifstofunni. Við nýtum okkur þetta oft án þess að hugsa og átta okkur á því að aðgangur að heitum útilaugum allan ársins hring eru lífsgæði sem fólk í öðrum löndum fær ekki að njóta.