Heimilið

Hleðsla

Fyrirtæki

Virkjanasvæði

Um ON

Gróðurhús

Saga gróðurhúsa á Íslandi er tiltölulega stutt en engu að síður merkileg. Fyrsta gróðurhúsið sem hitað var með jarðhita var tekið í notkun árið 1924. Í dag má finna mörg gróðurhús, sér í lagi á Suðurlandi, þar sem ræktað er grænmeti, blóm og ber á stórum skala. Það er líka algengt að fólk eigi sín eigin gróðurhús úti í garði, þó þau séu ekki alltaf beintengd hitaveitunni. Jarðhitinn og landslagið hafa haft mikil áhrif á matvælaframleiðslu á Íslandi. Tilkoma gróðurhúsa gerði okkur kleift að fullnýta jarðhitann umhverfis þau. Með hjálp jarðhitans getum við nú keypt íslenska tómata, gúrkur og sveppi allan ársins hring – eitthvað sem væri ómögulegt fyrir Íslendinga fyrri tíma. Þessi þróun hefur gjörbreytt aðgengi okkar að ferskum matvælum og sýnir hvernig nýsköpun getur umbreytt lífsskilyrðum heillar þjóðar.

Húsfreyjan Helena vökvar hér salat í gróðurhúsinu í Friðheimum. Í bakgrunni má sjá gesti veitingastaðarins sem býður uppá allskonar rétti úr tómötum og grænmeti sem ræktað er á staðnum.

Áður en gróðurhús komu til sögu notuðu Íslendingar jarðhitavatn til að hita jarðveginn og auka uppskeru, þó með takmörkunum á því hvað hægt var að rækta. Eldgos, kaldir vetur og önnur náttúruöfl gerðu ræktun erfiða og aðrar utanaðkomandi aðstæður höfðu einnig mikil áhrif á uppskeruna. Til dæmis ollu Skaftáreldar í Lakagígum árið 1783 með sínu mikla öskufalli mikilli hungursneyð þar sem búfé féll og uppskera brást. Um 25% þjóðarinnar dó úr hungri mánuðina eftir gosið.


Lífsskilyrði á Íslandi voru oft hörmuleg og einn mesti brottflutningur Íslandssögunnar varð á 19. öld, að hluta til vegna matarskorts í kjölfar fjölda eldgosa. Árið 1924 markaði tímamót þegar fyrsta gróðurhúsið, hitað með jarðhita, var byggt í Mosfellsbæ. Þetta var upphafið að stórkostlegri þróun landbúnaðarins hér á landi, sem hefur síðan blómstrað og gert ferskri ferskri matvöru kleift að vera á boðstólum allan ársins hring.

Prúðbúnir gestir í gróðurhúsi í Mosfellssveit á árunum 1935-1940.

Í dag er landbúnaður mun auðveldari og skilvirkari, þökk sé nútíma verkfærum, þróun í landbúnaði og bættum geymsluskilyrðum. Aðgangur að mat hefur einnig stórbatnað, bæði vegna betri landbúnaðarskilyrða og bættra húsakosta, ásamt miklum innflutningi. Gróðurhús eru lykilatriði þegar kemur að því að tryggja okkur innlenda ferskar matvörur allan ársins hring. Margir Íslendingar eru stoltir af því að kaupa íslenskar matvörur en gleyma oft tengingunni við jarðhitann sem gerir ræktunina mögulega.

Dóróthea Ármannsdóttir tínir tómata í gróðurhúsinu í Friðheimum. Án jarðhita væri nær ómögulegt að rækta tómata hérlendis.

Í dag má sjá gróðurhús á víð og dreif hér á landi, sér í lagi á Suðurlandi. Öll sem keyra fram hjá Hveragerði taka eftir fjölda stórra gróðurhúsa meðfram veginum, í vetrarmyrkrinu lýsa þau upp sortann og sjást greinilega úr fjarlægð. Gróðurhúsin eru sannarlega einstakt sjónarspil og tákn um nýsköpun og sjálfbærni.

Það er í raun með ólíkindum að hér sé hægt að rækta grænmeti allan ársins hring. Þökk sé jarðhitanum hefur okkur þó tekist hið ómögulega og nú er hægt að fá íslenska tómata, gúrkur og paprikur alla daga ársins.

Í gróðurhúsum á Íslandi er ræktað fjölbreytt úrval af grænmeti, þar á meðal kál, gúrkur, sveppi, paprikur, jarðarber og tómata. Einnig má finna fersk blóm og plöntur sem prýða heimili okkar. Þó bananar séu ekki lengur seldir hérlendis hefur bananarækt verið við lýði síðan á fimmta áratugnum.

Um allt land starfa einnig fjöldi smærri ræktunarstöðva sem leggja áherslu á kryddjurtir, hindber, þara og spennandi tilraunir með blöndun ávaxtatrjáa. Það er ótrúlegt hvað íslensk ræktun hefur uppá að bjóða!

Bananar hafa lengi verið ræktaðir á Íslandi, þótt ótrúlegt megi virðast. Þessi mynd er tekin milli 1960-1970 í Garðyrkjuskólanum og má sjá vísi að myndarlegri bananakippu á trénu.

Gróðurhús veita okkur ekki aðeins fersk matvæli og blóm heldur eru þau líka vinsælir áfangastaðir fyrir ferðafólk og sum hver nýtt sem kaffi- og veitingahús. Íslendingi frá 19. öld myndi líklega bregða mjög við að ganga inn í matvöruverslun í dag – líta má á fjölbreytileika og fjölda ferskra matvæla um miðjan vetur sem stórkostlegan sigur. Næst þegar þú setur íslenska tómata, gúrku eða sveppi í innkaupakerruna þína, nú eða kaupir íslenskan blómvönd, mundu að allt þetta er mögulegt vegna jarðhitans.