News
•
Jan 18, 2024
Fyrir skemmstu kom út skýrsla frá Náttúrufræðistofnun Íslands með niðurstöðum á vöktun mosa við jarðvarmavirkjanir ON, en vöktun hófst árið 2012. Niðurstöðurnar sýna að tíðni mosaskemmda, sem líklega má tengja við brennisteinsmengun, hefur minnkað frá síðustu mælingum sem gerðar voru 2017. Jafnframt hefur styrkur brennisteins í mosa við Hellisheiðarvirkjun lækkað mikið frá 2017. Niðurstöðurnar sýna að mosaþekja er að langmestu leyti enn þá órofin í vöktunarreitum, nema í einstaka reitum við Nesjavallavirkjun.
Losun brennisteinsvetnis við Hellisheiðarvirkjun hefur minnkað mjög mikið eftir að lofthreinsistöð var stækkuð árið 2017 og er það að öllum líkindum ástæðan fyrir þessum góðu niðurstöðum. Við stefnum á að gera enn betur og erum byrjuð á framkvæmdum við nýja lofthreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun, sem áætlað er að verði tilbúin 2025, en hún mun hreinsa nær allt brennisteinsvetni og koltvísýring frá virkjuninni. Svo stefnum við á að byggja lofthreinsistöð við Nesjavallavirkjun 2030, en þar var sett upp tilraunastöð árið 2022.
Okkur þykir vænt um mosann við virkjanirnar okkar og við erum því í skýjunum með þessar frábæru fréttir.