
News
•
Feb 24, 2025
Svokölluð skriðtengi hafa verið í þróun hjá ÍSOR síðastliðin tíu ár en þau eru ný lausn sem ætlað er leysa vandamál sem verður í borholum þegar þær hitna en þá geta fóðringar í holunum skemmst vegna varmaþenslu.
Á dögunum náðist stór áfangi í verkefninu þegar skriðtengin voru sett niður til prófunar í nýja vinnsluholu sem Orka náttúrunnar er að bora við Nesjavallavirkjun. Tengin voru sett ofan í holu NJ-37 á Nesjavöllum og gekk sú aðgerð án vandræða. Búið er að gera mælingar á holunni eftir niðursetningu tengjanna og næsta skref er að fylgjast með tengjunum og fóðringunum þegar holan verður hituð upp til að kanna hvort skriðtengin hafi lokast við varmaþenslu fóðringarinnar, eins og þau eru hönnuð til að gera.
Orka náttúrunnar, Orkuveitan og ÍSOR vinna saman að þróun og prófun skriðtengjanna en ÍSOR hlaut Nýsköpunarverðlaun IGC (Iceland Geothermal Conference) síðastliðið vor fyrir hönnun skriðtengjanna og fékk tilnefningu Evrópska Jarðhitaráðsins (European Geothermal Energy Council) til nýsköpunarverðlauna nú í ár. Skriðtengin eru smíðuð hér heima í Vélvík renniverkstæði.
Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá sérfræðinga Orku náttúrunnar, Orkuveitunnar og ÍSOR fara nánar yfir hlutverk skriðtengja og hvaða vandamál þau geta leyst.