News
•
Feb 11, 2024
Helga Kristín Jóhannsdóttir, deildarstjóri Jarðhitagarðs hjá Orku náttúrunnar, tók þátt í málstofu Orkuveitunnar á Arctic Circle, sem haldin var í Hörpu síðastliðinn föstudag, 18. október.
Málstofan bar yfirskriftina „Clear Opportunities: The Shift that lies ahead“, og ræddu þar helstu sérfræðingar Orkuveitunnar, ON og Carbfix ásamt öðrum leiðandi aðilum á sviði nýsköpunar í orkumálum, hvernig við getum nýtt þau tækifæri sem fylgja orkuskiptum og sjálfbærri nýtingu grænnar orku.
Erindi Helgu Kristínar fjallaði um nýsköpun, hringrásarhugsjón og sjálfbærni í jarðhitanýtingu. Þar lagði hún áherslu á mikilvægi grænna orkulausna í nútímaiðnaði og hvernig Jarðhitagarður Orku náttúrunnar hefur skapað ný tækifæri fyrir framsækin fyrirtæki sem skilja mikilvægi hringrásarhugsunar. Í máli hennar kom meðal annars fram að fyrirtækin í Jarðhitagarði nýta auðlindir svæðisins á ábyrgan og ábatasaman hátt og er uppbygging garðsins enn í fullum gangi.
Önnur sem héldu erindi á málstofunni voru Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni, Hjalti Páll Ingólfsson, forstöðumaður GEORG jarðvarmaklasans, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Í málstofunni var lögð áhersla á mikilvægi orkuskipta og nýrrar nálgunar á það sem hefur verið kölluð „Straumhvörfin“. Með þessu hugtaki er lögð áhersla á að orkuskiptin snúist ekki aðeins um að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orkugjafa, heldur einnig um að skapa ný viðskiptatækifæri, bæta orkunýtingu og stuðla að umhverfisvænni og sjálfbærari samfélögum.
Arctic Circle er stærsti alþjóðlegi vettvangurinn fyrir málefni tengd norðurslóðum þar sem koma saman stjórnmála- og viðskiptaleiðtogar, vísindamenn, umhverfissérfræðingar, fulltrúar frumbyggja og annarra alþjóðlegra hagsmunaaðila til að ræða áskoranir og tækifæri.
