News
•
Mar 1, 2024
Orka náttúrunnar hefur birt auglýsingu á alþjóðlegum vettvangi þar sem leitað er áhuga á kaupum á 150 megavöttum af rafmagni frá virkjunum fyrirtækisins. ON rekur jarðgufuvirkjanir á Hengilssvæðinu, þar sem einnig er framleitt heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið, og vatnsaflsvirkjun við Andakílsá í Borgarfirði. Markmið fyrirtækisins er að fá markaðsverð fyrir rafmagnið þegar samningar renna út.
Samningar um framlengingu gildandi samninga á markaðsverði liggja ekki fyrir. Því hefur Orka náttúrunnar gripið til þess ráðs að auglýsa í dag eftir áhugasömum kaupendum á 150 megavöttum af raforku sem mun að öllu óbreyttu losna á næstu 2-4 árum. Það er gert í gegnum evrópskan útboðsvef.
„Það er skylda okkar gagnvart eigendum og samfélaginu öllu að bjóða þá orku sem við öflum á markaðsverði. Þarna er einnig mikilvægt að hafa í huga að Orka náttúrunnar er í opinberri eigu og má þess vegna ekki selja rafmagnið undir markaðsverði þar sem það er einfaldlega brot á ríkisaðstoðarreglum. Við núverandi aðstæður teljum við rétt að kanna einfaldlega jarðveginn” segir Árni Hrannar Haraldsson framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.
Árni Hrannar segir Orku náttúrunnar finna fyrir þannig eftirspurn eftir grænni orku að augljóst sé að verð í núverandi samningum uppfylli alls ekki kröfur um markaðsverð.
„Öllum er auðvitað velkomið að taka þátt í þessu ferli sem nú er hafið. Við hjá Orku náttúrunnar verðum hinsvegar að gera ráð fyrir þeim möguleika að ekki semjist um áframhaldandi sölu. Þess vegna förum við þessa leið til að verja hagsmuni þess almannafyrirtækis sem Orka náttúrunnar er og sjálfbærni reksturs þess.
Við sjáum það líka fyrir okkur að í framtíðinni muni sífellt vaxandi hluti raforkuvinnslu hér á landi verða seldur með þessum hætti á sama tíma og aðgangur almennings að raforku er tryggður með sértækum aðgerðum.”
Þá ítrekar Árni Hrannar að mikilvægt sé að verð á raforku myndist á markaði „um leið og staðinn er vörður um tryggan aðgang almennings að raforku, hvernig sem árar.”