News
•
Aug 11, 2024
Orka náttúrunnar fékk viðurkenningu í vikunni þegar hin árlegu umhverfisverðlaun Borgarbyggðar voru afhent við athöfn í Ráðhúsi sveitarfélagsins.
Ný lóð ON við Brúartorg í Borgarnesi var valin snyrtilegasta lóð atvinnufyrirtækis en í síðasta mánuði var nýr og glæsilegur Hleðslugarður ON opnaður þar. Umhverfis- og landbúnaðarnefnd sveitarfélagsins stendur fyrir verðlaunaveitingunni og kom fram í máli Sigrúnar Ólafsdóttur formanns nefndarinnar að strax hafi verið gengið frá öllu á lóð ON, hún væri fallega hönnuð, þar væri leiksvæði fyrir börnin og allt til fyrirmyndar.
„Við hjá Orku náttúrunnar erum afar ánægð og stolt af þessari viðurkenningu. Markmiðið með hönnun Hleðslugarðanna er að skapa ánægjulega upplifun fyrir viðskiptavini á meðan verið er að hlaða rafbíllinn og okkur finnst það hafa tekist,“ segir Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri ON.
„Áhersla hefur verið lögð á að vanda vel til verka hvað varðar afþreyingu, staðsetningu og frágang við allar okkar hleðslustöðvar. Við Hleðslugarð ON í Borgarnesi, líkt og við Hleðslugarð ON í Öskjuhlíð, er boðið upp á spreyta sig í mylluspili, hoppa á trampólíni og sitja á bekkjum og njóta góðra stunda með fallega fjallasýn fyrir framan sig á meðan hlaðið er,“ segir Jóhann Ingi Magnússon, deildarstóri Sölu og þjónustu hjá ON sem tók við viðurkenningunni ásamt Guðjóni Hugberg Björnssyni, tæknistjóra. Lesa má nánar um verðlaunin og fleiri verðlaunahafa á vef Skessuhorns.
Orka náttúrunnar þakkar fyrir sig og óskar öðrum verðlaunahöfum til hamingju!

