News
•
Jul 22, 2024
Orka náttúrunnar hefur opnað nýjan hraðhleðslugarð í Öskjuhlíð með samtals tólf tengjum, þannig er tryggt að öll komist að til að hlaða bílinn.
Við Hleðslugarð ON í Öskjuhlíð verður hleðslustundin ánægjulegri með bættu aðgengi og fjölskylduvænna umhverfi. Þar eru trampólín, mylluspil og bekkir til að sitja á og njóta. Þá geta rafbílaeigendur nýtt sér Öskjuhlíðina og frábæra möguleika hennar til útivistar á meðan bíllinn er í hleðslu en t.d. eru göngu- og hjólaleiðir við allra hæfi í fallegu umhverfinu.
Hleðslustöðvarnar í nýja Hleðslugarðinum eru öflugar, 240 kW og eru þær afar þægilegar í notkun. Á stöðvunum er góður upplýsingaskjár sem gerir alla upplifun frábæra og hægt er að velja leiðbeiningar á íslensku og öðrum tungumálum. Í Hleðslugarðinum var aðgengi fyrir öll haft í algeru fyrirrúmi.
Fleiri Hleðslugarðar í vinnslu
Við hjá Orku náttúrunnar erum einstaklega stolt af nýju Hleðslugarðinum í Öskjuhlíð sem og þeirri vegferð sem við erum á í því að stækka hleðslunet ON. Hleðslugarðurinn er hluti af 10 ára afmælisuppbyggingu ON en sambærilegur Hleðslugarður er í vinnslu við Digranesgötu í Borgarnesi. Viðskiptavinir ON eiga því von á reglulegum fréttum af opnun stöðva á nýjum staðsetningum sem eru fjölskylduvænni, þægilegri og með fleiri tengjum til að lágmarka bið.
