Gönguleiðir á Hengilssvæðinu.
Öll velkomin!
Hengilssvæðið er háhitasvæði um 20 kílómetra suðaustur af Reykjavík. Á ári hverju stunda tugþúsundir Íslendinga og erlendir ferðamenn útivist á Hengilssvæðinu en þar eru um 110 km af stikuðum gönguleiðum. Utan athafnasvæða virkjana ON er svæðið opið almenningi. Hengilssvæðið er á virku gosbelti. Þar er að finna heita hveri, hraungíga, ár og vötn og gróðursæla bletti.
Hengilssvæðið er kjörið til útivistar allan ársins hring. Búið hefur verið í haginn fyrir útivistarfólk með neti merktra gönguleiða, uppsetningu upplýsingaskilta, gönguskála og útgáfu gönguleiðakorts. Orka náttúrunnar og áður Orkuveitan hafa haft veg og vanda af þessu starfi síðan árið 1990, í samráði við sveitastjórnir á svæðinu.